Fjarskipti, rekstrarfélag Vodafone, hefur samið um kaup á gagnaflutningsþjónustu af Farice til þriggja ára. Samhliða því hafa félögin náð samkomulagi um þau ágreinings- og dómsmál sem uppi voru milli félaganna vegna fyrri samnings. Fjarskipti stefndu Farice vegna vanefnda á samningi í fyrra auk þess sem Farice stefndi Fjarskiptum. Málin eru nefnd í skráningarlýsingu Fjarskipta og viðauka við hana í fyrrahaust.

Gagnstefna Fjarskipta á hendur Farice var þingfest fyrir héraðsdómi í nóvember síðastliðnum og þess krafist að Farice greiddi Fjarskiptum 686 þúsund evra í skaðabætur eða afslátt vegna vanefnda. Það jafngildir rúmum 117 milljónum íslenskra króna á núvirði. Í málinu er hins vegar miðað við miðgengi frá 1. janúar 2011 til 19. júní í 2012.

Fram kemur í tilkynningu frá Fjarskiptum í dag, að áhrif samkomulagsins um endanlegt uppgjör á fyrri samningi eru óveruleg á uppgjör síðasta árs.