Fyrirtækin CCP, Fjarðarkaup, Icelandair Group og Össur eru tilnefnd til þekkingarverðlauna FVH en Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga afhendir verðlaunin í tíunda sinn 11. febrúar nk. á Hilton Reykjavík Nordica. Auk Þekkingarverðlaunanna verður kynnt val félagsins á viðskipta- eða hagfræðingi ársins, sem fellur í skaut aðila sem þykir hafa náð framúrskarandi árangri í starfi á liðnu ári.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, mun afhenda verðlaunin en hann er verndari þekkingardagsins.

Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður CCP, mun flytja erindi við athöfnina en CCP hlaut þekkingarverðlaunin á síðasta ári. Félagsmönnum og helstu aðilum íslensks atvinnulífs verður boðið til móttökunnar sem mun standa frá klukkan 17:00 til 19:00.