Fjögur fyrirtæki af tíu sem þátt tóku í viðskiptasmiðjunni Startup Reykjavík í sumar fengu styrk hjá Tækniþróunarsjóði. Ekki liggur fyrir hversu háir styrkirnir eru. Alla jafna nema verkefnastyrkir um 10 milljónir króna. Fyrirtækinu sóttu um styrki til 2-3 ára.

Arion banki hélt viðskiptasmiðjuna með Innovit og nýsköpunarsetrinu Klaki. Arion banki veitti tíu viðskiptateymum sprotafjármögnun í formi hlutafjár auk leiðsagnar og ráðgjafar frá rúmlega 50 einstaklingum í viðskipta- og háskólasamfélaginu.

Fyrirtækin sem hlutu styrkina voru Cloud Engineering, Designing reality og Eskitech. Fyrirtækið When Gone fékk frumherjastyrk, sem getur numið um fimm milljónum króna.

Fram kemur í tilkynningu frá Arion banka að Startup Reykjavík verði endurtekið næsta sumar. Þá segir í tilkynningu bankans, að styrkveitingin sé gott dæmi um það hvernig fjárfesting einkaaðila og styrkjaumhverfi hins opinbera geti unnið saman að framþróun góðra hugmynda.