Í Hálffimm fréttum KB banka eru vangaveltur um hvaða áhrif rafmagnsleysið í Straumsvík getur haft á heildarvöruútflutning landsmanna en framleiðslutapið gæti numið allt að fjórum milljörðum króna.

Útflutningur áls vó um 20% af heildarvöruútflutningi landsmanna í fyrra sem jafngilda um 36 milljörðum króna. Nú þegar fréttir bárust af rafmagnsleysi í álverinu í Straumsvík vekur lokun 160 kera upp spurningar um áhrif á vöruskipti. Framleiðslugeta álversins er 180 þúsund tonn á ári og eru 480 ker í vinnslu í þremur kerskálum, framleiðslugeta álversins skerðist því um 40% við óhappið.

"Talið er að framleiðslutapið gæti hlaupið á allt að 20 þúsund tonnum af áli, en ef sú tala er sett í samhengi við heimsmarkaðsverð á áli gæti framleiðslutapið hlaupið á tæpum fjórum milljörðum króna. Áhrifin á vöruskipti við útlönd eru því ekki veigamikil í heild sinni þar sem áætlað framleiðslutap er 7% af heildarframleiðslu áls á Íslandi og dregur úr útflutningi sem nemur 1,4%, að öðru óbreyttu," segir í Hálffimm fréttum.