Fjöldi þeirra sem skráðir eru atvinnulausir er nú kominn undir 17.000 en samkvæmt vef Vinnumálastofnunar eru nú 16.949 manns skráðir atvinnulausir.

Atvinnuleysið í maí mældist 8,7% en þá voru tæplega 168.000 manns á atvinnumarkaði.

Samkvæmt áætlun Vinnumálastofnunar má gera ráð fyrir að um vinnuafl mælist nú í júní um 175.000 manns þannig að gróflega má áætla að atvinnuleysi sé því um þessar mundir 9,7%. Þessi tala er þó birt með þeim fyrirvara að ekki eru allir atvinnulausir allan mánuðinn (þó aðrir kunni að bætast við) þannig að það kemur til minnkunar á heildaratvinnuleysi.

Þannig gerir Vinnumálastofnun ráð fyrir 7,9% - 8,4% atvinnuleysi í júní. Til samanburðar var atvinnuleysið á sama tíma í fyrra 1,1%.

Sem fyrr er atvinnuleysið mest á höfuðborgarsvæðinu en þar eru 12.192 einstaklingar skráðir atvinnulausir eða tæp 72% þeirra sem skráðir eru atvinnulausir á landinu öllu.

Hlutfallslega hefur atvinnuleysi aukist lítillega á höfuðborgarsvæðinu en um miðjan mars voru rúmlega 11.300 mann skráðir atvinnulausir á höfuðborgarsvæðinu og var hlutfallið þá 66,7% allra sem þeirra sem skráðir voru atvinnulausir. Um miðjan febrúar var hlutfallið 69.%

Þá eru 1.719 einstaklingar skráðir atvinnulausir á Suðurnesjum eða um 10% allra þeirra sem skráðir eru atvinnulausir. Um miðjan mars s.l. voru um 1.800 manns skráðir atvinnulausir á Suðurnesjum og þá var hlutfallið um 10,6% af öllum þeim sem skráðir voru atvinnulausir.

Þar á eftir er mesta atvinnuleysið á Norðurlandi eystra þar sem 1.2989 manns eru skráðir atvinnulausir (7,6%) en minnst er atvinnuleysið á Norðurlandi vestra þar sem 100 manns eru skráðir atvinnulausir (0,6%).