„Ef skoðuð er fjölgun Íslendinga sl. tíu árin þá sést að náttúruleg fjölgun Íslendinga er meiri en fjölgun ferðamanna sem eru á Íslandi á hverjum degi,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Icelandair Group, í samtali við Morgunblaðið .

Halldór Benjamín flutti erindi á fjárfestafundi Icelandair Group þar sem hann leitaðist við að svara því hvort fjölgun erlendra ferðamanna til Íslands væri raunverulegt áhyggjuefni. Hann telur Ísland langt frá því að nálgast þolmörk sín hvað fjölda ferðamanna varðar.

Hann bendir á að fjölgun ferðamanna hafi þrefaldast yfir háannatímann frá árinu 2003 þegar erlendir ferðamenn voru 15 þúsund talsins á dag. Nú séu þeir 45 þúsund á dag yfir háannatímann en 10 þúsund að meðaltali utan háannatíma. Hafi þeim því fjölgað um 30 þúsund á tíu árum, en á sama tíma séu 20 þúsund Íslendingar erlendis, þannig að hreinu áhrifin séu tiltölulega lítil.