Félagsdómur hefur úrskurðað öll verkföll Bandalags háskólamanna lögmæt. Þar á meðal er verkfall 135 ljósmæðra á Landspítalanum en þær hafa boðað ótímabundinn verkföll á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá og með morgundeginum. RÚV greinir frá þessu.

Þetta er eitt af fjölmörgum verkföllum sem boðuð hafa verið hjá BHM. Þá er verkfall lögfræðinga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu lögmætt en það mun m.a. leiða til þess að allar þinglýsingar stöðvast. Náttúrufræðingar hafa einnig boðað verkfall sem hefst á morgun auk þess sem að 108 geislafræðingar og 215 lífeindafræðingar fara í ótímabundið verkfall á morgun en áhrifa þess mun gæta á öllum sjúkrahúsum landsins.