Eimskip hefur fjölgað ferðum til Bandaríkjanna og er nú siglt á tveggja vikna fresti til N-Ameríku.

Áður fór eitt skip á mánuði. Annarri leið var hinsvegar bætt við í byrjun sumars, sem siglir einnig til Sortlands í Noregi. Brynjar Viggósson, forstöðumaður útflutningsdeildar Eimskips , segir aukna tíðni ferða skapa tækifæri fyrir íslenskan útflutning.

„Viðkoma í Noregi skapar mikið tækifæri og íslenskir framleiðendur geta þá keypt hráefni þaðan. Þetta á sérstaklega við um sjávarútvegstengda þjónustu og vöru, sem er farin að leita meira út fyrir landsteinana á meðan það hefur hægt á öðrum geirum hér á Íslandi,“ segir Brynjar.

Annar eftirspurn

Einn viðmælenda Viðskiptablaðsins hafði á orði að lítil tíðni flutningaskipaferða til Bandaríkjanna sé hamlandi fyrir íslenskan útflutning en eins og áður segir var ferðin aðeins ein í mánuði þar til í sumar.

Samskip sigla ekki beint til Bandaríkjanna en senda þangað vörur með viðkomu í Rotterdam. Samskip kaupa einnig pláss í ferðum Eimskips.

Brynjar telur núverandi fjölda ferða til Ameríku anna eftirspurn. Markaðurinn hér sé ekki það stór og áhersla hafi verið á flutning til Evrópu, sér í lagi útflutning á sjávarafurðum.

Syðsti viðkomustaður Ameríkuleiða Eimskips er Norfolk á austurströnd Bandaríkjanna, með viðkomu meðal annars í Halifax. Nýja leiðin siglir síðan syðst til Boston og nyrst til Sortlands í Noregi.