Á þriðja hundrað manns sækja ráðstefnu um íslenska orkuvinnslu og orkuútflutning, sem nú stendur yfir í höfuðstöðvum viðskiptafréttastofunnar Bloomberg fjármálahverfinu City í Lundúnum. Það er Bresk-íslenska viðskiptaráðið sem gengst ráðstefnunni í samvinnu við  Bloomberg, en þar beinast athygli manna einkum að hugsanlegum raforkuflutningi um sæstreng frá Íslandi til Bretlandseyja.

Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er heiðursgestur ráðstefnunnar, en hann flutti setningarávarp, þar sem hann stiklaði á stóru um kosti Íslands, sem orkuútflytjenda, sögu orkuvinnslu og þróun atvinnulífs. Á eftir honum talaði breski þingmaðurinn Charles Hendry, fyrrverandi orkumálaráðherra núverandi ríkisstjórnar, og var ljóst af orðum hans að Bretar horfa til þessa kots í orkuöflun af fullri alvöru.

Auk þeirra munu þeir Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar, Mike Lawn og Mark Taylor, orkmumálasérfræðingar Bloomberg, Paul Johnson frá National Grid, Isaac Kato frá Verne Global og Árni Rafnsson frá Mannviti flytja erindi og kynningar.

Breskir fjölmiðlar hafa upp á síðkastið greint talsvert frá nýjum möguleikum á orkuflutningi frá Íslandi um sæstreng, en orkuverð hefur hækkað mjög í Bretlandi á liðnum árum. Ekkert útlit fyrir að það sjatni í bráð og jafnvel rætt um orkukreppu. Henni valda einkum verðhækkanir á jarðefnaeldsneyti, áhersla á „grænar“ orkulindir og tregða í fjárfestingum í orkugeiranum.

Óbeinn orkuútflutningur frá Íslandi með starfrækslu orkufrekra fyrirtækja, svo sem gagnavera, hefur einnig vakið verðskuldaða athygli í tæknigeiranum.