Svo virðist sem tveir af fjölmiðlamógúlum heimsins séu komnir í hár saman síðan John Malone, stjórnarformaður Liberty Media, greindi frá því að hann hyggðist auka hlut sinn í News Corp. úr 9% upp í 17%. Robert Murdoch, hinn litríki stjórnarformaður News Corp. brást hart við og hefur hrundið af stað áætlun til að eitra fyrir áformum Malone.

Murdoch hefur sagt að ef einhver reyni að komast yfir 15% í News Corp. þá ætli hann að setja ódýr bréf í umferð og bjóða það öðrum fjárfestum. Þannig hyggst hann standa af sér allar tilraunir utanaðkomandi aðila til að ná völdum í félaginu. Stjórnendur Liberty hafa hins vegar sagt að þeir vonist til þess að ná samkomulagi við aðra hluthafa innan félagsins til að þeir hafi meira með stjórnun þess að gera.

Byggt á The Economist