Lögmynt eða lögeyrir Íslands er íslenska krónan. Engu að síður hefur evrunni vaxið ásmegin á Íslandi þannig að eftir er tekið í smæstu kimum landsins. Allt frá litlu matvöruverslunum þar sem neytandinn getur nú þegar borgað með evrum fyrir vörurnar út í búð og til Kauphallarinnar þar sem stærsta fyrirtækið innan hallarinnar mun framvegis gera upp í evrunni. Hvaða áhrif mun þetta hafa á hagkerfið? Er þrýstingur á að við tökum evruna upp að aukast eða er núverandi ástand alveg fyrirtak? Sú óvænta staða er komin upp aðeins nokkrum tugum ára eftir að við fórum að nota íslenska krónu að erlendir gjaldmiðlar eru sífellt meira notaðir á Íslandi.

Umræða um þau mál eru í hámæli um þessar mundir þar sem ýmis stórfyrirtæki eru farin að gera upp, skrá sig og hafa eigið fé í erlendri mynt. En einsog Lárus Welding, bankastjóri Glitnis, benti á í viðtalið við Viðskiptablaðið um síðustu helgi að þá hefur hagkerfi okkar verið fjölmynta um nokkurn tíma: "þetta er þróað hagkerfi margra mynta vegna innflutnings, útflutnings og lána sem koma hvaðanæva að", sagði Lárus.

En þróun þessa hagkerfis okkar virðist vera á þann veg að erlendar myntir eru stöðugt að auka vægi sitt, nú þegar hvert stórfyrirtækið á fætur öðru er farið að nýta annað en krónuna til uppgjörs. Að mati flestra greiningaraðila steðjar ekki hætta að íslensku krónunni þótt fyrirtækjum sé leyft að gera upp, skrá sig eða hafa eigið fé í erlendri mynt. Í raun má það teljast eðlileg þróun í útrás íslenskra fyrirtækja. Fyrirtæki leiti að hagkvæmustu leiðinni til þess að fást við gengisáhættu í rekstri ásamt því að vilja halda reikningsskilunum gagnsæjum. Aftur á móti gætu þessar breytingar haft sálræn áhrif sem væru til ills.

Því einsog Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, komst að orði þá á "peningahagfræði það sammerkt með guðfræði að trúin skiptir öllu. Framtíð krónunnar veltur fyrst og fremst á trúverðugleika hennar í augum landsmanna og hve lengi þeir kjósa að nýta hana hugsunum sínum og gerðum um hagræn málefni".

Lesið útekt Viðskiptablaðsins á áhrifum evrunnar á íslensku krónuna.