Stefnt er að því að byggja fjórar kísilverkmiðjur hér á landi á árunum 2016 og 2017. Fyrirtækin Thorsil og United Silicon hyggjast byggja í Helguvík, PCC á Bakka við Húsavík og Silicor Materials stefnir að því að reisa sólarkísilverksmiðju á Grundartanga.

Verkefnin eru mislangt á veg komin. Þrjú af fyrirtækjunum fjórum eru búin að semja um kaup á raforku en það eru United Silicon, PCC og Silicor Materials. Síðastnefnda fyrirtækið er það eina sem ekki er búið að ganga frá ívilnunarsamningi við stjórnvöld en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins liggur slíkur samningur á borðinu og verður hann undirritaður á næstu vikum. Ívilnunarsamningar kveða á um að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, veiti afslátt af ýmsum sköttum og gjöldum.

Samanlögð fjárfesting verkefnanna fjögurra er á bilinu 157,5 til 185,5 milljarðar króna. Lægri talan miðar við að United Silicon verði með einn kísilofn en sú uppbygging kostar 12 milljarða. Fyrirtækið stefnir hins vegar að því að vera með fjóra kísilofna í rekstri þegar fram líða stundir og er þumalputtareglan sú að það kosti um 8 milljarða að bæta nýjum ofni við. Miðað við fjóra ofna hljóðar heildarfjárfesting United Silicon því upp á 36 milljarða króna.

Ef miðað er við að United Silicon verði með einn kísilofn er samanlögð orkuþörf kísilverksmiðjanna fjögurra 265 Mw (370 Mw miðað við fjóra ofna hjá United Silicon). Til að setja þetta í samhengi þá er uppsett afl Búðarhálsvirkjunar, sem er nýjasta virkjun Landsvirkjunar, 90 Mw. Uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar, sem er langstærsta virkjun landsins, er 690 Mw og uppsett afl Búrfellsstöðvar er 270 Mw.

Sólarkísilverksmiðja Silicor Materials er dýrasta framkvæmdin af þessum fjórum. Heildarfjárfestingin hljóðar upp á 750 milljónir dollara eða ríflega 89 milljarða króna. Verkmiðjan á Grundartanga er jafnframt sú sem mun skapa flest störf eða 400. Á framkvæmdartímanum munu alls um 1.350 manns vinna við byggingu verksmiðjanna fjögurra. Til samanburðar störfuðu um 1.500 manns við Kárahnjúkavirkjun þegar sú framkvæmd stóð sem hæst.

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 18. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .