Tæpur fjórðungur kjósenda hefur enn ekki ákveðið hvern á að kjósa í forsetakosningunum á morgun. Þetta sýna niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem fjallað er um í Fréttablaðinu í dag. Það má teljast óvenjulegt að svo margir séu óákveðnir á síðasta degi fyrir kosningar.

Samkvæmt könnuninni nýtur Ólafur Ragnar Grímsson afgerandi mests fylgis en um 57% segjast ætla að kjósa hann. Fylgi Þóru Arnórsdóttur er nú 30,8%. Bæði Ólafur og Þóra hafa bætt við sig fylgi frá síðustu könnun en samkvæmt niðurstöðunum er forskot Ólafs enn töluvert.

Aðrir frambjóðendur njóta, líkt og í síðustu könnunum, töluvert minni stuðnings. 7,5% ætla að kjósa Ara Trausta Guðmundsson, um 2,6% styðja Herdísi Þorgeirsdóttir, 1,7% styðja Andreu J. Ólafsdóttur en 0,3% Hannes Bjarnason.

Um könnunina: Hringt var í 2.216 einstaklinga dagana 27.-28. júní. Þátttakendur voru valdir með slembiútaki úr þjóðskrá. Spurt var: Hvern myndir þú kjósa til embættis forseta Íslands ef gengið yrði til kosninga nú? 65,1 prósent þeirra sem áðist í tóku afstöðu til spurningarinnar.