Rúmlega 60% fyrirtækja hyggjast halda óbreyttum starfsmannafjölda, 14% hyggjast fjölga þeim en 24% fækka á næstu sex mánuðum. Er þetta meðal niðurstaðna ársfjórðungslegrar könnunar Capacent Gallup á stöðu og horfum meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins, en könnunin var gerð í febrúar og mars 2010.

Á vef Samtaka atvinnulífsins segir að þetta sé heldur skárri niðurstaða en í könnuninni í desember sl. en svipuð og í mars 2009. „Þessi niðurstaða bendir til þess að hlutfallslegt atvinnuleysi verði svipað á næstunni og verið hefur á fyrstu mánuðum ársins, eða í kringum 9%. Áberandi munur er á svörum stjórnenda fyrirtækja eftir því hvort þau stunda útflutning vöru eða þjónustu eða ekki þar sem útflutningsfyrirtækin hyggjast að jafnaði fjölga starfsfólki nokkuð en önnur fyrirtæki hyggjast fækka starfsfólki umtalsvert," segir á vef Samtaka atvinnulífsins.