Mikil óvissa virðist ríkja um hvernig félag FL Group verður í framtíðinni en félagið er með mörg járn í eldinum um þessar mundir og óljóst hvernig nýjustu fjárfestingum eða fjárfestingarhugmyndum félagsins muni reiða af.

"Menn hafa bent á að FL Group sé með mjög mörg járn í eldinum og sé hugsanlega að færast of mikið í fang. Hluthafana vantar svör við því hvaða stefnu félagið hyggst taka með öllum sínum fjárfestingum. Félagið er í mikilli umbreytingu og ekki alveg ljóst hvernig það verður til lengri tíma og í því felst töluverð óvissa," sagði einn sérfræðingur úti á markaðnum í samtali við Viðskiptablaðið. Hann sagðist vera á þeirri skoðun að félagið sé ein áhættumesta fjárfestingin í íslensku Kauphöllinni.

Bréf félagsins hafa lækkað að undanförnu eftir að hafa náð tímabundnu hámarki um miðjan júní síðastliðinn í genginu 16,1. Gengi félagins í dag er 14,15 og lækkunin því 12%. Hugsanlega kann þessi lækkun að einhverju leyti að endurspegla aukinn ótta meðal fjárfesta. Ofangreindur sérfræðingur taldi varasamt að oftúlka sveiflur á hlutabréfamarkaði enda sé eðli hlutabréfamarkaða að verð sveiflist. Hann sagði þó að aukin óvissa um framtíðarskipan félagsins kunni að hafa hækkað ávöxtunarkröfuna og þannig lækkað verðið.

"Fjárfestar kunna að líta svo á að það sé meiri áhættusækni í félaginu og því meiri áhætta við að fjárfesta í því. Félagið hefur verið að þenja sig mikið að undanförnu. Útkoman úr öllum þessum fjárfestingum liggur ekki fyrir og óvissa um framtíðina. Félagið hefur heldur ekkert verið of duglegt við að draga úr þessari óvissu með því að skýra út fyrir hluthöfum hver framtíðarsýnin er eða hvert áhættustig félagsins eigi að vera. Þessu til viðbótar telja margir að það sé bara einn maður í fyrirtækinu sem taki allar stórar ákvarðanir án þess að taka tillit til vilja annarra hluthafa," og vísaði hann þar til Hannesar Smárasonar, stjórnarformanns og stærsta einstaka hluthafa félagsins.