*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 19. desember 2007 11:50

FL Group mun ekki gera tilboð í Inspired Gaming Group

Ritstjórn

FL Group hefur ákveðið að halda ekki áfram viðræðum við breska hugbúnaðarfyrirtækið Inspired Gaming Group (Inspired). Þann 7. september síðastliðinn staðfesti FL Group að það ætti í viðræðum við félagið um hugsanlegt yfirtökutilboð til hluthafa þess. Í ljósi núverandi markaðsaðstæðna er það ákvörðun félagsins að gera ekki yfirtökutilboð í félagið að svo stöddu.

FL Group mun áfram vinna með stjórn Inspired og styðja við framtíðarvöxt þess en stjórnendur FL Group telja mikil tækifæri felast í rekstri félagsins.  Samkvæmt grein 2.8 í breskum yfirtökulögum mun FL Group ekki vera heimilt að gera yfirtökutilboð í félagið á næstu sex mánuðum, nema að verulegar breytingar verði á aðstæðum er tengjast Inspired og tilboði FL Group. Þau skilyrði eru nánar skilgreind í breskum yfirtökulögum.

Inspired er með leiðandi stöðu í heiminum á sviði hugbúnaðarlausna fyrir tölvutengdar leikjavélar og hefur markaðsráðandi stöðu í leikjavélum fyrir afþreyingariðnaðinn í Bretlandi.