FL Group, ásamt fjárfestum, hefur tryggt sér lán að virði 390 milljónir evra (35 milljarðar króna) til að fjármagna kaup félagsins á hollenska drykkjarframleiðandanum Refresco, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Kaupþing banki, franski bankinn Societe Generale og Fortis Bank hafa umsjón með láninu, en kaupverðið nemur 461 milljón evra. Hlutur FL Group í félaginu verður 49%.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands segir að fjárfestahópurinn hafi lokið kaupunum á Refresco.

"Það er ánægjulegt að kaupin á Refresco séu frágengin þar sem við getum núna einbeitt okkur að frekari stækkun félagsins. Þá er sérstaklega ánægjulegt að Fortis og Societe Generale skuli ásamt Kaupþingi taka þátt í að sölutryggja lánsfjármögnun vegna kaupanna og sýnir það trú manna á framtíðarsýn okkar á Refresco," segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group í tilkynningunni.

Hjá Refresco starfa um 1.200 manns í fimm löndum en félagið er annar stærsti framleiðandi á ávaxtasöfum og svaladrykkjum undir vörumerkjum verslana (e. private label) í Evrópu. Helstu markaðssvæði félagsins eru Þýskaland, Frakkland, Spánn, Portúgal, Holland og Finnland. Árið 2005 nam velta félagsins 606 milljónum evra og var hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) 64,1 evra milljónir.

Eins og kom fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands þann 12. apríl voru kaupin háð samþykki samkeppnisyfirvalda í Þýskalandi sem nú hefur fengist og er því öllum fyrirvörum aflétt.