Flaga Group hefur ráðið David Baker sem forstjóra Medcare. Hann mun bera ábyrgð á stefnu, rekstri og afkomu Medcare, en félagið er leiðandi í sölu lausna til svefnmælinga um allan heim. Ráðning David Baker kemur í framhaldi af nýlegri skipulagsbreytingu þar sem nafni félagsins var breytt í Flaga Group, sem rekur tvær aðskildar rekstareiningar, Medcare sem sérhæfir sig í tækjum og búnaði til svefnmælinga og SleepTech sem rekur svefnmælingastofur í New York og nærliggjandi ríkjum í Bandaríkjunum.

"David Baker býr yfir mikilli reynslu og hefur náð frábærum árangri í rekstri fyrirtækja í okkar grein" segir Bogi Pálsson starfandi stjórnarformaður Flögu Group í tilkynningu fyrirtækisins.

David Baker hefur yfir 20 ára reynslu af stjórnunarstörfum, þar af 10 ár á svefnmarkaðinum. Hann var einn af stofnendum Sandman árið 1992 og stýrði hann árangursríkri uppbyggingu fyrirtækisins, sem nú er hluti af Tyco Healthcare samsteypunni. David var meðal frumkvöðla að stofnun Sandman og var forstjóri félagsins þar til það var selt árið 1995. David var framkvæmdastjóri Sandman til ársins 2003, þegar hann tók við starfi aðstoðarforstjóra hjá Phoenix Sleep, sem rekur svefnmælingarstofur í tveimur fylkjum í Bandaríkjunum.

Auk David Baker mun framkvæmdastjórn Medcare verða skipuð Sigurjóni Kristjánssyni, Böðvari Þórissyni, og Guðnýju Sigurðardóttur. Sigurjón er aðstoðarforstjóri og stýrir starfsemi Medcare í höfuðstöðvunum á Íslandi þar sem m.a. framleiðsla og vöruþróun fer fram. Böðvar ber ábyrgð á sölu til dreifingaraðila um allan heim auk þess að stýra Evrópustarfsemi félagsins í Amsterdam og Munchen. Guðný er fjármálastjóri Medcare.

?Medcare sérhæfir sig á svefngreiningarmarkaði eingöngu og er orðið leiðandi fyrirtæki á alþjóðamarkaði í þeirri grein. Medcare er vel búið til að ná leiðtogahlutverki á Bandaríkjamarkaði eins og fyrirtækið hefur náð á öðrum lykilmörkuðum. Þetta þýðir að fyrirtækið á mikla möguleika á áframhaldandi örum vexti" sagði David Baker. Hann bætti við ?vaxandi vitund almennings um svefnsjúkdóma auk rannsókna sem sýna fram á tengsl svefnsjúkdóma og annarra lífshættulegra sjúkdóma gerir þennan markað mjög spennandi."

Markaðsrannsóknarfyrirtækið Frost & Sullivan veitti Medcare nýlega verðlaun fyrir framúrskarandi árangur og leiðandi markaðsstöðu á Evrópumarkaði, vegna vörugæða, góðs árangurs í sölu og markaðssetningu auk fjárfestingar í vöruþróun. ?Eitt af hverjum fjórum svefngreiningartækjum sem seld eru í Evrópu eru frá Medcare. Ég hlakka til að vinna með fólki sem náð hefur svo góðum árangri" sagði David Baker í tilkynningu félagsins.

Vyto Kab, einn framkvæmdastjóra Flaga Group, hefur látið af störfum fyrir Flaga Group hf.