Flokkarnir tveir sem nú stefna að myndun ríkisstjórnar á Ítalíu eru sagðir mjög nálægt því að ná samkomulagi um helstu stefnumál, þar með talið flatan 15% skatt, borgaralaun fyrir hina fátæku og lækkun eftirlaunaaldurs.

Eftir ríflega tveggja mánaða stjórnarkreppu á Ítalíu, en kosningarnar 4. mars síðastliðinn skiluðu engum skýrum sigurvegara, nálgast tveir flokkar, sem sagðir eru helstu efasemdarflokkarnir um aðild að ESB í landinu, nú að mynda ríkisstjórn.

Stefnumál flokkanna sem báðir hafa lofað dýrum útgjaldahækkunum hafa vakið áhyggjur fjárfesta í landinu, sem er það þriðja stærsta á evrusvæðinu. Eru þau sögð kosta ríkið á milli 65 og 100 milljarða evra, en ekki kemur fram hvort inni í þeirri tölu séu væntanlegt tekjutap af skattalækkunum.

Flokkarnir hafa í gegnum árin talað fyrir endurskoðun samninga við ESB, og jafnvel að kosið verði um aðild að evrunni, þó það hafi ekki verið á stefnuskrá flokkanna fyrir síðustu kosningar.

Ekki hefð fyrir stjórnarsáttmálum

Luigi Di Maio leiðtogi Fimm stjörnu hreyfingarinnar segir nú að hann og Matteo Salvini, leiðtogi Fylkingarinnar, áður Norðurfylkingarinnar, séu að fara í gegnum síðustu smáatriðin í stjórnarsáttmála flokkanna.

Ekki er löng hefð fyrir samsteypustjórnum í landinu og hvað þá að hamraðir séu saman stjórnarsáttmálar í smáatriðum, en samningurinn er undir yfirskrift um breytt stjórnmál. Flokkarnir tveir eru ólíkir, en báðir eru þó sagðir popúlískir í Bloomberg fréttamiðlinum, Fimm stjörnu hreyfingin sögð vera á móti kerfinu og Fylkingin á móti innflytjendum.

Fimm stjörnu hreyfingin var stærsti einstaki flokkurinn í kosningunum, með 32,66% atkvæða og 227 þingsæti af 630 í þinginu, en Fylkingin varð stærst innan fjögurra flokka bandalags hægriflokka með 17,37% atkvæða og 125 sæti.

Hægribandalagið, sem inniheldur m.a. flokk Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra, Forza Italia, var samanlagt með 265 sæti en vinstribandalagið fimm flokka fékk 122 sæti.

Berlusconi leysti hnútinn

Það var ekki fyrr en Berlusconi samþykkti að leysa Fylkinguna úr skuldbindingum sínum gagnvart hægribandalaginu að flokkurinn samþykkti að fara einn í stjórnarmyndunarviðræður við Fimm stjörnu bandalagið. Það hafði útilokað samstarf við Berlusconi og flokk hans vegna ítrekaðra spillingarmála.

Enn hefur ekki verið ákveðið hver verði forsætisráðherraefni flokkanna, en talið er að það geti verið hlutlaus aðili eða a.m.k. einhver annar en leiðtogarnir tveir.

Flatur skattur, borgaralaun og stemmt stigu við ólöglegum innflytjendum

Meðal þess sem Laura Castelli, þingmaður Fimm stjörnuhreyfingarinnar sagði eftir fund flokkanna væri að þeir hefðu náð saman um borgaralaunin sem Fimm stjörnu hreyfingin lofaði og að hætt verði við umbætur á lífeyriskerfi landsins sem hækkuðu m.a. lífeyrisaldurinn, en báðir flokkarnir börðust gegn því.

Castelli segist ekki hafa áhyggjur af viðbrögðum aðila á markaði. „Þegar markaðirnir héldust stöðugir daginn eftir kosningarnar skildum við að þeir eru ekki hræddir við Fimm stjörnurnar.“ Meðal þeirra stefnumála sem sagðar eru hafa ratað í stjórnarsáttmálann eru 15% flatur skattur, sem yrði þó 20% á fjölskyldur með meira en 80 þúsund evrur í tekjur á ári.

Kostnaðurinn við borgaralaunin eru að mati Fimm stjörnuhreyfingarinnar um 17 milljarðar evra á ári, en yfirmaður tryggingastofnunar landsins segir kostnaðinn hins vegar allt að 30 milljarðar evra. Skuldir Ítalíu eru næst mestar í Evrópu á eftir Grikklandi.

Einnig stefna flokkarnir að því að vísa ólöglegum innflytjendum úr landi, en Fylkingin barðist fyrir því að hömlur verði settar á það að hælisleitendur sigli yfir Miðjarðarhafið á stórum stíl og lendi á ströndum landsins. Jafnframt hafa flokkarnir talað fyrir endurskoðun refsiaðgerða gegn Rússlandi segir í frétt Bloomberg .