Kona sem slasaðist nokkuð við að hafa dottið á fjölförnum veitingastað fær ekki bætur vegna þessa úr ábyrgðartryggingu veitingastaðarins samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum.

Konan taldi sig hafa runnið á bleytu eða olíubletti á leið til sætis á veitingastaðnum með tveimur vinkonum sínum í júní árið 2018. Í vitnisburði vinkvennanna kemur að þær hafi ekki verið ölvaðar og að konan „hafi hvorki hrasað né misstigið sig heldur hafi fótunum beinlínis verið kippt undan henni og hún skollið í gólfið.“

Hins vegar fannst ekkert athugavert á gólfinu en það segi sig sjálft að hafi konan „stigið á einhvern aðskotahlut hefði hann skotist annað og fita eða bleyta sogast upp í klæðnað hennar.“ Því verði slysið ekki rakið til óaðgæslu konunnar heldur vanrækslu af hálfu veitingastaðarins.

Í málsvörn veitingastaðarins er hins vegar bent á að ekki hafi verið sýnt fram á að bleyta eða fita hafi fundist á gólfinu eða þá að starfsmenn veitingastaðarins hafi haft vitneskju um slíkt en vanrækt að bregðast við.

Í áliti úrskurðarnefndarinnar er tekið undir málsvörn veitingastaðarins. Ekki hafi verið sannað að bleyta eða fita hafi verið á gólfinu eða þá að um vanrækslu af hálfu veitingaðilans hafi verið að ræða.

Því eigi konan ekki rétt á greiðslu bóta vegna líkamstjóns síns úr ábyrgðartryggingu veitingastaðarins.