Ísland hefur á undanförnum árum komist á kortið sem álitlegur staður fyrirgagnaversiðnað. Hér á landi eru rekin þrjú sérhæfð gagnaver, tvö á vegum Advania og eitt á vegum Verne Global. „Þess fyrir utan er nokkur fjöldi aðila sem hefur hafið prófanir með það að markmiði að ákveða frekari uppbyggingu hérlendis á næstu misserum,“ segir Magnús Þór Gylfason, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. Hann getur þó ekki gefið upp hverjir það eru sem standa að þessum prófunum á þessu stigi málsins.

Borealis Data Center er einn þeirra aðila sem gætu hugsanlega reist gagnaver hér á landi á næstu misserum. Þann 11. júní síðastliðinn var félaginu veitt framkvæmdaleyfi í Reykjanesbæ á 21.000 fermetra lóð. „Það eru gríðarleg tækifæri í þessu til lengri tíma fyrir Ísland,“ segir Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Borealis. „Við erum að sjá fyrir okkur að gagnaversgeirinn verði að raunverulegum iðnaði. Við ætlum að vera partur af því,“ segir hann. Prófanir félagsins eru þegar hafnar en þær miða að því að athuga hvernig jarðvegurinn er fyrir byggingu annars gagnavers í Reykjanesbæ. Stækkunarmöguleikar eru einnig miklir í ljósi þess hversu stór lóðin er.

Viðskiptavinir gagnaveranna eru fyrirtæki eins og BMW, CCP, Colt og Opin kerfi, en einnig fjölmargir smærri aðilar. Margir þeirra nýta sér þjónustu gagnavera til að grafa eftir Bitcoin-rafmyntinni, en stærst slíkra félaga bandaríska félagið Cloudhashing.

Borga meira fyrir raforku en stóriðja

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er heildarorkunotkun gagnavera nú um 17 megavött. Þar af er orkunotkun gagnavers Advania að Fitjum um 8 megavött en Thor Datacenter um 2 megavött. Gagnaver Verne Global að Ásbrú notar um 7 megavött.

Gagnaverin kaupa orku á talsvert hærra verði heldur en hún er seld til stóriðju. „Við höfum auglýst raforkuverð upp á 43 Bandaríkjadali á megavattstund sem gagnaver virðast áhugasöm um að tryggja sér aðgang að,“ segir Magnús Þór.

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu sem fylgir Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .