Um 18.000 gestir heimsóttu sýninguna Verk og vit 2008, sem haldin var 17.-20. apríl í Laugardalshöll. Þetta eru ívið fleiri gestir en komu á Verk og vit 2006, en þá heimsóttu tæplega 17.000 gestir sýninguna, segir í fréttatilkynningu.

„Það var ánægjulegt að sjá hversu vel sýnendur stóðu sig í að gera Verk og vit 2008 áhugaverða og spennandi, því sýning á borð við þessa verður aldrei betri en það sem sýnendurnir sjálfir leggja til. Við erum jafnframt afar ánægð með þann fjölda sem lagði leið sína á Verk og vit 2008. Aukning gesta sýnir að mikill áhugi er meðal fagaðila og almennings á að skoða það sem fyrirtæki og stofnanir í þessum greinum hafa fram að færa,“ segir Margit Elva Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Verks og vits í fréttatilkynningunni.

Á sýningunni kynntu um 100 fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög vörur sínar og þjónustu.

Fjölbreyttir viðburðir voru haldnir samhliða Verki og viti og meðal þeirra má nefna Íslandsmót iðngreina sem haldið var 18. og 19. apríl í anddyri gömlu Laugardalshallarinnar.

Á mótinu öttu kappi iðnnemar og nýútskrifaðir iðnaðarmenn í ellefu iðngreinum. Fimmtudaginn 17. apríl var haldin ráðstefna undir yfirskriftinni „Skipulag eða stjórnleysi?“ um skipulagsmál, fjármögnun og nýjar framkvæmdir sem vakti mikla athygli auk þess sem ýmsir aðrir viðburðir voru haldnir á vegum samstarfsaðila og sýnenda.

AP sýningar stóðu að Verki og viti 2008 í samstarfi við iðnaðarráðuneyti, Reykjavíkurborg