Tveir bankar til viðbótar hafa sent nokkra gjaldeyrismiðlara í frí vegna rannsóknar á hugsanlegri markaðsmisnotkun á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði.

Í gær var greint frá því að tveir starfsmenn HSBC hefðu verið sendir í frí og að tveir starfsmenn Citi væru það sömuleiðis.

Áður höfðu á annan tug miðlara annað hvort verið reknir eða látnir í frí hjá bönkum eins og JP Morgan, Royal Bank of Scotland, Deutsche Bank og Barclays. VB.is fjallaði um málið á fimmtudag .

Nokkrar eftirlitsstofnanir í Evrópu og Bandaríkjunum hafa viðskiptin til skoðunar. Er verið að athuga hvort miðlararnir hafi skiptst á upplýsingum um pantanir viðskiptavina til að geta betur haft áhrif á verðlagningu á gjaldeyrismarkaði.