*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 30. janúar 2018 13:26

Fleiri Íslendingar kaupa gjafir erlendis

Stuðningsmenn Pírata og Miðflokksins líklegri, en Framsóknarmenn ólíklegastir til að kaupa gjafir í erlendum netverslunum.

Ritstjórn

Hlutfall Íslendinga sem keyptu megnið af jólagjöfum sínum erlendis hefur lækkað töluvert síðustu ár, þó enn sé hlutfallið tveir af hverjum þremur að því er fram kemur í Þjóðarpúls Gallup. Fyrir átta árum síðan var hlutfallið komið upp í 9 af hverjum tíu en árið 2007 var hlutfallið hins vegar rúmlega 84%.

Nær 13% keyptu megnið af jólagjöfunum erlendis á síðasta ári en það hlutfall er hátt í fjórum sinnum hærra en fyrir átta árum þegar 3,5% keyptu megnið af gjöfunum erlendis. Árið 2007 var hlutfallið hins vegar nær því sem það er nú eða nær 10%. Fimmtungur landsmanna keypti álíka mikið af jólagjöfum innanlands og erlendis, en í fyrri mælingum var hlutfallið einungis um 6%.

Ríkustu kaupa mest erlendis

Jafnframt sýna mælingar Gallup að þeir sem hafi lægstar fjölskyldutekjur séu líklegri til að kaupa megnið af jólagjöfunum innanlands, heldur en þeir sem hafa hærri tekjur. Fór hlutfallið hæst meðal þeirra sem voru með 1.250 þúsund krónur eða meira, eða í 16%, en meðal þeirra eru 24% sem kaupa álíka mikið innanlands og erlendis, en restin, 60% keypti megnið innanlands. 

Hlutfall þeirra sem hafa laun undir 400 þúsund sem keypti megnið af sínum gjöfum innanlands var hins vegar 78%, og þeir sem voru í næsta hópi þar fyrir ofan, á tekjubilinu 400 til 549 þúsund keyptu jafnvel enn fleiri megnið innanlands, eða 80%. 

43% keyptu eitthvað á netinu

Nær 43% landsmanna keyptu einhverjar jólagjafir á netinu fyrir nýliðin jól og er það mikil aukning frá fyrri mælingum þegar einungis um 11-15% keyptu gjafir á netinu. Rúmlega 18% keyptu einungis gjafir á netinu frá erlendum fyrirtækjum, tæplega 15% einungis frá innlendum og nær einn af hverjum tíu bæði frá erlendum og innlendum fyrirtækjum og eru þetta talsvert hærri hlutföll en í fyrri mælingum.

Álíka margir karlar og konur keyptu jólagjafir á netinu en karlar keyptu þær frekar frá erlendum fyrirtækjum en konur. Fólk yngra en 50 ára er líklegra til að versla jólagjafir á netinu en þeir sem eldri eru. Fólk yngra en 50 ára er einnig líklegra til að versla gjafirnar frá erlendum fyrirtækjum en þeir sem eldri eru. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi keyptu frekar jólagjafir á netinu en þeir sem hafa minni menntun að baki. 

Loks er munur eftir því hvað fólk kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag en þeir sem kysu Pírata keyptu helst jólagjafir á netinu og keyptu þær frekar frá erlendum fyrirtækjum en aðrir. Hlutfall þeirra sem það gerðu var 35% meðal Pírata, en minnst meðal kjósenda Framsóknarflokksins eða 10%. Kjósendur Miðflokksins gerðu það hins vegar næst mest, eða 27%.