*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 6. janúar 2017 12:19

Fleiri konur sækja símenntun

Konur og háskólamenntaðri líklegri til að sækja sér símenntun heldur en karlar og ómenntaðir.

Ritstjórn

Árið 2015 sóttu 27,5% landsmanna á aldrinum 25-64 ára sér fræðslu, annað hvort í skóla eða aðra fræðslu með leiðbeinanda, sem er aukning 1,9 prósentustig frá árinu áður.

Gerir það um 45.700 manns sem er fjölgun um 3.600 manns frá fyrra ári, en frá árinu 2003 hefur hlutfall landsmanna sem stundar einhvers konar símenntun farið hækkandi.

Þá var það 22,2% en árið 2006 fór það hæst eða í 27,6%, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.

Þriðjungur sóttu sér símenntun

Ef horft er á annað aldursbil, eða frá 16-74 ára sóttu 75.300 manns sér fræðslu árið 2015, eða 32,5% landsmanna á þessum aldri. Er það fjölgun um 4.500 manns og 1,6 prósentustig frá árinu á undan.

Hærra hlutfall þeirra sem hafa lokið háskólamenntunar sóttu sér símenntun en þeirra sem eru minna menntaðir. Sóttu tæp 38% háskólamenntaðra sér símenntun á árinu 2015, en einungis um 17% þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun.

Síðan sækja mun fleiri konur sér fræðslu, eða 32,1% þeirra á aldrinum 25-64 ára en einungis 23,0% karla.

Stikkorð: Endurmenntun skólar símenntun fræðsla