Nokkur bílaumboð ætla að bregðast við lánsfjármögnuninni sem BL býður viðskiptavinum sínum og ætla að bjóða upp á svipuð lán. Önnur segja þetta lánafyrirkomulag, vaxta- og kostnaðarlaus lán, lýsa örvæntingu enda sé verið að gefa peninga.

Björn Snædal Hólmsteinsson, fjármálastjóri Heklu, segir í samtali við Fréttablaðið í dag fyrirtækið ekki hafa áform um að feta í fótspor BL. Hann segir framlegð nýrra bíla það lága, aðeins örfá prósent. Með fyrirkomulagi BL sé verið að gefa hana alla. Hann segir flesta þurfa yfirleitt meira en 40% lán sem BL bjóði. Hann og fleiri sem Fréttablaðið ræddi við segja afborganir af 40% láni á 36 mánuðum stífar og þurfi fólk að geta ráðið við þær.

Bílaumboð Toyota ætlar hins vegar að bjóða viðskiptavinum sínum svipuð lán og verða þau kynnt á bílasýningu um næstu helgi. Verið er að skoða málið hjá Öskju.