Samningaviðræður standa nú yfir við nokkur sveitafélög um að þau komi inn í fasteignafélagið Fasteign hf. Má þar nefna Vestmannaeyjar og Garðabæ en einnig er félagið í viðræðum við Reykjavíkurborg um einstök verkefni. Fasteign hf. er rétt rúmlega eins árs og hefur til þessa einblínt nokkuð á Reykjanesbæ sem fór með allar sínar fasteignir inn í félagið við stofnun þess.

Um er að ræða fasteignafélag sem aðeins þeir sem falla undir svokallað Cad 0 til 20 eiga möguleika á að komast inn í en Cad-hlutfallið mælir greiðslugetu en stór fasteignafélög sem þessi njóta betri greiðslugetu. Undir það fellur ríkið, sveitarfélög, seðlabanki og fjármálastofnanir. Sveitarfélög og fjármálafyrirtæki sem koma inn í félagið verða hluthafar í hlutfalli við framlagðar eignir en gert er ráð fyrir að sveitarfélög verði ráðandi aðili í félaginu. Nú þegar hafa þrjú sveitarfélög á Suðurnesjum, Reykjanesbær, Sandgerði og Vogar gengið inn í félagið.