Vöxtur í fjárfestingu og verksmiðjuframleiðslu í Kína var fyrir neðan væntingar í ágústmánuði og er það enn ein birtingarmynd þess að kínverskur efnahagur sé í vanda.

Verksmiðjuframleiðsla jókst um 6,1% frá árinu áður, en spár höfðu gert ráð fyrir 6,4% vexti. Þá var vöxtur í fjárfestingu á fastafjármunum – aðallega fasteignum – einungis 10,9% og hefur hann ekki mælst lægri í 15 ár.

Kínverska hagkerfið hefur vaxið örar en nokkurt annað undanfarin ár en nú þykir ljóst að þessi vöxtur mun ekki halda áfram af sama krafti. Hafa áhyggjur markaðarins valdið gríðarlegum lækkunum á verði hlutabréfa.

Það er ekki einungis framleiðsla sem hefur dregist saman. Önnur merki um að ástandið sé ekki gott eru þau að bílasala hefur minnkað umtalsvert sem og innflutningur.

Í síðustu viku sagði kínverski forsætisráðherrann Li Keqiang að Kína væri enn á réttri leið með að ná markmiðum sínum varðandi hagvöxt og annað, þrátt fyrir nýjustu gögn. Kína hefur þegar lækkað vexti fimm sinnum síðan í nóvember til að ýta undir virkni í hagkerfinu.

Kína endurskoðaði nýlega hagvaxtartölur sínar frá árinu 2014 úr 7,4% í 7,3% og er það versti árangur landsins í 25 ár. Í ár stefna stjórnvöld á að ná 7% hagvexti.