Flest fiskiskip voru með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í lok síðasta árs. Það voru alls 401 skip, eða um 23,6% fiskiskipastólsins. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar en 1.696 fiskiskip voru á skrá hjá Siglingastofnun í lok síðasta árs og hafði þeim fjölgað um sex frá árinu áður.

Næst flest, alls 324, höfðu heimahöfn skráða á Vesturlandi, eða 19,1%. Fæst skip höfðu heimahöfn á Suðurlandi, 72 alls, en það samsvarar 4,2% af heildarfjölda fiskiskipa.

Opnir bátar voru flestir á Vestfjörðum, 232, og á Vesturlandi 180. Fæstir opnir bátar höfðu heimahöfn á Suðurlandi, alls 17. Vélskip voru einnig flest á Vestfjörðum, alls 163, en fæst á Suðurlandi, 49 skip.

Flestir togarar höfðu skráða heimahöfn á höfuðborgarsvæðinu, alls 11, en níu togarar á Norðurlandi eystra. Fæstir togarar voru skráðir á Vesturlandi, alls þrír.