Flestir Íslendingar eru ánægðir með haftaafnámsáætlun stjórnvalda samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Þar kemur fram að rúmlega sjö af hverjum tíu svarendum sem taka afstöðu eru ánægðir með áætlun ríkisstjórnarinnar um losun gjaldeyrishafta, eða 71 prósent.

Einungis ríflega fjögur prósent eru beinlínis óánægð með áætlunina en tæpur fjórðungur segist hvorki vera ánægður né óánægður. Þá ríkir meiri ánægja með áætlunina meðal íbúa Reykjavíkur heldur en íbúa utan höfuðborgarinnar. Þá er einnig munur á viðhorfi fólks eftir fjölskyldutekjum, en sá hópur sem hefur hæstar fjölskyldutekjur er ánægðastur með áætlunina.

Þá þarf ekki að koma á óvart að þeir sem myndu kjósa stjórnarflokkana, Sjálfstæðisflokkinn eða Framsókn, eru talsvert ánægðari með áætlun ríkisstjórnarinnar heldur en þeir sem myndu kjósa aðra flokka.

Einungis 22% þeirra sem taka afstöðu hafa kynnt sér vel áætlun ríkisstjórnarinnar um losun hafta en rúmlega 44% hafa lítið sem ekkert kynnt sér hana. Þá hafa karlar kynnt sér hana betur en konur og þeir sem eru 60 ára og eldri eru líklegri til að hafa kynnt sér áætlunina vel heldur en þeir yngri. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi eru líklegri en þeir sem eru minna menntaðir til að hafa kynnt sér áætlunina.