Íbúðaverð hækkaði um 5,8% á höfuðborgarsvæðinu í fyrra, þar af um 0,4% á milli mánaða í desember. Þetta er talsvert hægari þróun en árið 2010 þegar íbúðaverðið hækkaði um 10% á milli ára. Nokkur munur er á verðþróun hvort um fjölbýli er að ræða eða sérbýli. Verð íbúða í fjölbýli hækkaði um 1,3% á milli mánaða á sama tíma og verð íbúða í sérbýli lækkaði um 2%. Þetta helst þó í hendur við þróunina á fasteignamarkaði þar sem um 75% af heildarviðskiptunum var með íbúðir í fjölbýli. Greining Íslandsbanka telur að til lengri tíma muni búast við því að íbúðaverð muni hækka umfram verðlagshækkanir.

Í Morgunkorni greiningardeildar bankans segir:

„Auk undirliggjandi efnahagsbata teljum við að talsverð þörf hafi safnast upp eftir húsnæði sem muni styðja við frekari íbúðaverðshækkun á næstu árum. Mikilvægur þáttur í þróun íbúðaverðs á næstunni er einnig byggingarkostnaður, en útlit er fyrir að byggingarkostnaður muni hækka á næstunni m.a. vegna yfirvofandi innleiðingar nýrrar byggingarreglugerðar nr. 112 sem gerir  auknar kröfur um gæði bygginga. Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð hækkað hraðar en byggingarkostnaður, sem hækkaði um 4,4% á tímabilinu. Hagstofan birti tölur um byggingarkostnað í janúar nú í morgun og hækkaði byggingarkostnaður um 0,2% frá fyrri mánuði. Vísitalan gildir fyrir febrúar 2013. Hækkun vísitölunnar nú er tilkomin vegna hækkunar á innfluttu og innlendu efni, sem hvort um sig  hækkaði um 0,3% frá fyrri mánuði, en vinnuliður vísitölunnar  auk undirliðar  fyrir vélar, flutninga og orkunotkun stóð í stað frá  fyrri mánuði.“