Greining Íslandsbanka telur líklegt að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum á miðvikudag. Ekki verði gerðar breytingar á vaxtastigi út næsta ár.

Vaxtaspáin er í samræmi við spár annarra greiningaraðila, svo sem greiningardeild Arion banka og IFS Greiningu.

Greiningardeildin spáir því að þegar næst verði hreyft við stýrivöxtum þá taki við hægfara hækkunarferli samhliða því að úr slakanum í efnahagslífinu dregur og hagkerfið færist nær jafnvægi.

„Nú eru virkir raunstýrivextir Seðlabankans neikvæðir um nær prósent og peningastefnan hvetjandi fyrir efnahagslífið á þann mælikvarða. Úr þessum slaka mun draga á næstunni samhliða því að verðbólgan hjaðnar og reiknum við með því að á næsta ári muni nefndin láta þá breytingu á aðhaldi nægja. Óvissan í spánni er frekar í þá átt að vextir verði lækkaðir á næstu mánuðum heldur en að þeir verði hækkaðir að okkar mati. Byggir það áhættumat m.a. á því að hugsanlegt er að hagvöxtur næsta kastið verði hægari en núverandi hagvaxtarspá Seðlabankans gerir ráð fyrir. Bæði er það vegna þeirrar óvissu sem er um framvindu fjárfestinga í atvinnulífinu og eins þeirrar óvissu sem nú er í efnahagsmálum stórs hluta viðskiptalandanna,“ segir í Markaðspunktum Greiningar Íslandsbanka.