Í byrjun síðustu viku hófu hermenn í Sómalíu skothríð á mótmælendur í landinu sem höfðu komið saman til að mótmæla hækkunum á matvælaverði.

Þetta er kraftbirtingarform pólitísks titrings sem er tilkominn vegna hækkandi matvælaverðs í heiminum. Nú felast lítil tíðindi í þeim fregnum að róstusamt sé á einstaka stað en það sem er einstakt er að um er að ræða viðbrögð við þróun á alþjóðamörkuðum – hrávöruverð í hæstu hæðum er farið að geta af sér pólitíska landskjálfta sem eru ekki staðbundnir heldur verður þeirra vart nánast alls staðar.

Og öll þessu mótmæli – þótt ólík séu – eru sprottin af sömu rót: Hækkandi hrávöruverði.

Þessar hækkanir hafa ekki eingöngu valdið götuóeirðum á Filippseyjum, Egyptalandi og Haítí, svo að einhver dæmi séu tekin, heldur hafa þær einnig orðið til þess að stjórnvöld í ríkjum á borð við Indland, Kína, Kambódíu og Víetnam hafa sett útflutningstakmarkanir á hrávöru sem notuð er til matvælaframleiðslu.

Sérfræðingar óttast að frekari hækkanir ýti undir þessa þróun. Það er að segja að þær verði til þess að kynda undir pólitískri ólgu í fátækum ríkjum og stjórnvöld freistist til þess að grípa í auknum mæli til haftaaðgerða til þess að stemma stigu við því fyrrnefnda.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .