Wow air, lággjaldaflugfélag í eigu Skúla Mogensen, var lýst gjaldþrota í lok mars. Fyrst fóru að heyrast fréttir um slæma fjárhagsstöðu félagsins á fyrri helmingi ársins 2018 og ýmsar aðgerðir sem miðuðu að því að tryggja rekstrarhæfi félagins til framtíðar mistókust. Má í því samhengi nefna 6,4 milljarða króna skuldabréfaútboð og mislukkaðar viðræður um sölu á félaginu; fyrst til Icelandair, svo Indigo Partners og loks á ný til Icelandair.

Óttuðust einhverjir að fall Wow air gæti haft mjög slæm áhrif á hagkerfið vegna fækkunar ferðamanna, en áhrifin áttu þó eftir að verða minni en margir óttuðust. Lögmennirnir Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson voru skipaðir skiptastjórar þrotabúsins. Lýstar kröfur námu alls 138 milljörðum króna og var stærsta krafan, sem nam 52,8 milljörðum króna, frá flugvélaleigunni CIT Aerospace International.

Í kjölfar gjaldþrots Wow air heyrðust sögusagnir um að Skúli Mogensen hygðist endurreisa Wow air, auk þess sem ýmsir aðilar stigu fram með hugmyndir að stofnun nýs lággjaldaflugfélags. Smiður nokkur setti í loftið vefsíðu sem var ætlað að safna saman hluthöfum að nýju lággjaldaflugfélagi. Athafnamaðurinn Ástþór Magnússon og hótelstjórinn Hreiðar Hermannsson lýstu sömuleiðis yfir áhuga á að koma að stofnun nýs lággjaldaflugfélags.

Ekkert af ofangreindu varð þó að veruleika. Hins vegar fór það svo að Michelle nokkur Ballarin tilkynnti endurreisn Wow air við hátíðlega athöfn á Grillinu á Hótel Sögu. Þar tilkynnti hún að jómfrúarflug hins endurreista flugfélags yrði í október. Þau áform hafa ekki ræst og enn er beðið eftir jómfrúarfluginu langþráða. Þá stofnaði hópur fyrrverandi lykilstarfsmanna Wow air lággjaldaflugfélagið Play og leitar félagið nú að fjármögnun til að geta hafið rekstur.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losnuðu um síðustu áramót en viðræður milli verkalýðsfélaganna og Samtaka atvinnulífsins höfðu hafist nokkrum mánuðum áður. Framan af var nokkuð langt á milli samningsaðila. Starfsgreinasambandið og VR ákváðu að vera í samfloti í viðræðunum við atvinnurekendur. Lagði verkalýðsarmurinn m.a. áherslu á að kjör þeirra launalægstu myndu hækka mest.

Samtök atvinnulífsins lögðu hins vegar áherslu á hóflegar launahækkanir, þar sem hagkerfi væri byrjað að kólna í kjölfar mikils hagvaxtarskeiðs. Um langt skeið þokuðust viðræður hægt og beindi verkalýðshreyfingin m.a. um skamma hríð verkfallsaðgerðum að fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Eftir að stjórnvöld komu að samningaborðinu fóru viðræður þó að þokast í rétta átt og að lokum var skrifað undir svokallaðan Lífskjarasamning, skömmu eftir fall Wow air.

Kyrrsetning 737-Max flugvélanna frá flugvélaframleiðandanum Boeing, hafði víðtæk áhrif á flugheiminn. Kyrrsetningin kom til vegna tveggja mannskæðra flugslysa með stuttu millibili, en báðar þoturnar sem fórust voru af fyrrnefndri gerð. Kyrrsetningin bitnaði á rekstri Icelandair, en þann 12. mars tilkynnti félagið að það hefði ákveðið að taka allar Boeing 737 Max vélar sínar úr rekstri.

Þoturnar voru hugsaðar sem lykilhlekkur í endurnýjun flota Icelandair og átti félagið pantaðar 16 Max vélar. Aðeins þrjár af þeim höfðu verið teknar í notkun er til kyrrsetningarinnar kom. Til að sem minnst rask yrði á flugáætlun félagsins var ákveðið að leigja þotur til skamms tíma sem fylltu þá að mestu leyti í skarð Max-vélanna. Umræddar vélar hafa ekki enn farið í loftið en félagið býst við að vélarnar verði tilbúnar í loftið í maí 2020.

Á árinu sem nú er að renna sitt skeið var nokkuð um uppsagnir innan bankageirans. Í lok september greip Arion banki til hópuppsagnar þegar 100 starfsmönnum bankans var sagt upp störfum, en auk þess var 12 starfsmönnum dótturfélagsins Valitor sagt upp. Uppsagnirnar höfðu legið í loftinu frá því um sumarið þegar Benedikt Gíslason tók við sem bankastjóri Arion banka.

Var það eitt af yfirlýstum markmiðum Benedikts að auka arðsemi bankans og boðaði hann viðamiklar skipulagsbreytingar. Síðar sama dag og Arion banki greindi frá uppsögnunum bárust fréttir frá Íslandsbanka um að bankinn hefði sagt upp 20 starfsmönnum. Frá síðustu áramótum hefur ársverkum hjá Íslandsbanka fækkað um 70, ársverkum hjá Arion hefur fækkað um 102 og hjá Landsbankanum hefur ársverkum fækkað um 16.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér.