Engar eignir fundust í þrotabúi BG Aviation ehf., sem tekið var til gjaldþrotaskipta í nóvember í fyrra. Fyrirtækið var í eigu Baugs Group og var stofnað í maí 2006 og var ætlað að kaupa, selja og reka flugvélar og aðrar eignir tengdar flugrekstri. Kröfur í þrotabúið námu 10,2 milljónum króna og var stærsti kröfuhafinn hið opinbera.

Síðasti ársreikningur félagsins er fyrir árið 2007 og samkvæmt honum námu eignir þess 2,3 milljónum dala en eigið fé var neikvætt um 750.000 dali. Kom það til vegna taps erlenda dótturfélagsins BG Aviation Ltd., en eignir íslenska félagsins voru nær allar í þessu dótturfélagi.