Flugfélagið JetX, sem er í meirihlutaeigu ferðaþjónustufyrirtækisins Primera Travel Group, mun fá afhentar fjórar nýjar Boeing 737-800 vélar á þessu ári.

Að sögn Andra Más Ingólfssonar, forstjóra Primera, eru vélarnar keyptar á kaupleigusamningi og mun félagið fá eina vél í apríl og tvær vélanna verða afhentar í byrjun maí. Til viðbótar er félagið með þrjár McDonnel Douglas vélar, tvær MD 82, og eina MD 83 vél. Þannig verður félagið með sjö vélar í rekstri næsta sumar.

"Við ætlum að keyra það fram á árið og um mitt ár munum við taka ákvarðanir um hvort við förum í frekari stækkun.
Þessar vélar koma alveg sérútbúnar fyrir okkur og eru innréttaðar í okkar litum, með leðursætum og með nýjasta búnaði fyrir afþreyingu. Sömuleiðis eru þær með nýjustu hreyflum og vængendum til að auka flugþol. Eftir þetta verðum við með nýjasta flotann á Norðurlöndunum. Fyrsta nýja vélin kemur í apríl og verður merkt félaginu -- glæsilegur gripur sem verður í notkun fyrir okkur hér á Íslandi, " sagði Andri.


Primera keypti meirihluta í JetX flugfélaginu á síðasta ári og á nú 60% hlut í félaginu á móti framkvæmdastjórateymi félagsins. JetX rekur vélar fyrir Primera í Skandínavíu og sinnir 70% af flugþörf til og frá Íslandi, en Primera hefur til þessa keypt flug af samstarfsaðilum erlendis fyrir þau 30% sem upp á vantar. JetX hefur þjónustað Heimsferðir út frá Íslandi með einni vél í allan vetur og hefur hún verið merkt Heimsferðum. Áhöfn Heimsferðavélarinnar er íslensk og er fastráðin hjá Jetx flugfélaginu. "Þessi vél hefur flogið mest allt okkar flug frá Íslandi og hefur það gengið ákaflega vel."

Heildarfarþegafjöldi samsteypu Primera Travel Group var um 500 þúsund farþegar á síðasta ári en gert er ráð fyrir að félagið muni flytja um 650 þúsund farþega á þessu ári. Með stækkuninni á flugflota JetX verður flugfélagið fært um að flytja um eina milljón farþega. Heildarvelta Primera Travel Group á þessu ári er áætluð 45 milljarðar króna og verður samsteypan þriðja stærsta ferðasamsteypa á Norðurlöndum.