Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair funda nú hjá ríkissáttasemjara. Samninganefndirnar funduðu einnig frá morgni til kvölds í gær.

Formaður félagsins, Sigrún Jónsdóttir, vildi ekkert gefa upp um gang viðræðna þegar Viðskiptablaðið náði tali af henni rétt í þessu.

Samningar Flugfreyjufélagsins og Icelandair hafa verið lausir frá því fyrir jól. Fyrr í vetur ákváðu félagsmenn að undirbúa verkfall en ekki hefur þó verið gripið til þeirra aðgerða.

Icelandair hefur þegar undirritað samninga við flugmenn og flugvirkja til eins árs.