Icelandair og flugvélaleigufyrirtækið AWAS hafa undirritað samning um samstarf fyrirtækjanna á leiguflugsmarkaði. AWAS er einn stærsti leigusali flugvéla í heiminum og eigandi 178 flugvéla sem eru í leigu hjá fyrirtækjum í 44 löndum víðs vegar um heim. Samningurinn gengur út á að AWAS mun bjóða viðskiptavinum sínum upp á leiguflugslausnir frá Loftleiðum Icelandic, sem nýtir vélar og áhafnir Icelandair í alþjóðlegri leiguflugstarfsemi sinni. Með þessum hætti geta markaðsskrifsstofur AWAS víða um heim boðið upp á leigu á flugvélum með áhöfnum og viðhaldi auk hinnar hefðbundnu flugvélaleigu.

Sigþór Einarsson, framkvæmdastjóri Loftleiða-Icelandic, segir að ávinningur
Loftleiða sé sá að fá aðgang að sölu- og markaðskerfi AWAS fyrir
leiguflugsþjónustu félagsins. "Samningnum er einnig þannig háttað að okkur
er frjálst að gera samskonar samninga við aðra aðila á þessum markaði,"
segir Sigþór. "AWAS hefur í gegnum tíðina rekið eigin flugvélar og leigt út
með áhföfnum og viðhaldi, líkt og Loftleiðir gera, en þegar Morgan Stanley
eignaðist AWAS var ákveðið að félagið myndi hverfa úr beinum flugrekstri.
AWAS vildi hins vegar áfram geta boðið viðskiptavinum uppá
leiguflugslausnir, og leitaði því til okkar um gerð þessa samnings." Sigþór
segir ekki gott að meta hversu miklum viðskiptum samningurinn muni skila
Loftleiðum. "Samningurinn sjálfur er samstafssamningur, en kveður í sjálfu
sér ekki á um ákveðin verkefni. Hann er hins vegar þegar farinn að skila
okkur viðskiptatækifærum frá söluskrifstofum AWAS."

Icelandair rekur um þessar mundir tæpa tvo tugi Boeing 757 og Boeing 767
flugvéla í áætlunarflugi Icelandair, fragtflugi Icelandair-Cargo og
leiguflugi Loftleiða-Icelandic.