Flugrekstrarfélagið AMR Corp., sem FL Group á 5,98% hlut í, tilkynnti í dag að félagið hefði verið rekið með hagnaði árið 2006 og er þetta í fyrsta sinn sem félagið er rekið með hagnaði frá árinu 2000 að því er kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings.

Félagið tilkynnti jafnframt að fjórði ársfjórðungur hefði skilað 17 milljón dollara hagnaði sem er verulegur rekstrarbati m.v. árið á undan þegar rekstrartapið var um 600 milljónir dala. Greinendur á markaði höfðu ekki átt von á því að félagið mundi skila hagnaði á fjórða ársfjórðungi. Tekjur á fjórða ársfjórðungi jukust um 4,4% miðað við sama tímabil árið 2005 en rekstrarkostnaðurinn dróst saman um 6,1% milli ára. Þegar árið 2006 er skoðað í heild nam hagnaður ársins um 231 milljón Bandaríkjadala samanborið við 857 milljóna tap árið 2005.

Í Hálffimm fréttum er bent á að hlutabréf AMR Corp. hækkuðu um 33% á fyrstu sextán dögum ársins og þar af hækkuðu bréfin um rúm 7% í gær. Eftir lokun markaða í gær hafði FL Group grætt um 8 milljarða króna af fjárfestingu sinni í AMR Corp á þessu ári ef miðaða er við fast gengi og ekki tekið tillit til fjármögnunarkostnaðar.