Mikill samdráttur í farþegaflugi hefur gert það að verkum að flugleiðum, eða flugleggjum eins og það er gjarnan kallað, í Bretlandi hefur fækkað um tæpar 200 á s.l. 12 mánuðum.

Samkvæmt umfjöllun breska blaðsins Telegraph hefur flugleiðum fækkað um 192 frá því í júní í fyrra en blaðið segir að hætt hafi verið að fljúga nær allar þessar leiðir vegna minnkandi eftirspurnar í farþegaflugi.

Nýjasta dæmið um flugleið sem hætt er að fljúga er að í nýliðinni viku tilkynnti Virgin Atlantic flugfélagið að það myndi á komandi vetri hætta að fljúga legginn frá Heathrow flugvelli til Chicago í Bandaríkjunum. Þá kom einnig fram í breskum fjölmiðlum að sárafáir hefðu þegar átt pantað flug með félaginu á þessum legg og því lítið mál að ýmist endurgreiða miðana sem þegar hafa verið pantaðir eða finna tengiflug fyrir viðkomandi viðskiptavini.

„Það er lítið um bókanir og eftirspurnin bara á niðurleið,“ sagði Paul Charles, upplýsingafulltrúi Virgin í samtali við fjölmiðla.

„Almenningur ferðast þó eitthvað en er ekki tilbúinn að greiða það verð sem í boði er þannig að það er erfitt að hagnast á flugi um þessar mundir.“

Þá hafa önnur bresk flugfélög, til að mynda British airways, Loganair og Ryanair þegar lagt niður flug á fjölmörgum leggjum á komandi vetri.

En það er ekki bara minnkandi kaupmáttur, atvinnuleysi og erfiðar efnahagsaðstæður sem gerir flugfélögum erfitt. Breska ríkisstjórnin kynnti nýlega áform um hækkun á flugskatti, sem í Bretlandi nefnist Air Passanger Duty, frá og með 1. nóvember næstkomandi en Telegraph hefur eftir viðmælendum sínum að skattahækkunin eigi eftir að hækka verð á flugi það mikið að menn muni ferðast minna og því geri hann flugfélögum einungis lífið leitt.

Eitt stærsta eignarfélag Bretlands í fluggeiranum, Jet Republic, gaf út fyrir heldi nýja spá um farþegaflug þar sem gert er ráð fyrir því að á síðasta ársfjórðungi þessa árs verði búið að leggja niður allt að 1.000 flugferðir til og frá 10 af stærstu flugvöllum Bretlands.

„Þessar tölur sýna að það er í raun verið að skattleggja fólk frá því að fljúga,“ segir einn viðmælandi Telegraph en sá hinn sami segir að hver fjögurra manna fjölskylda þurfi að greiða allt að 600 Sterlingspund í skatt þegar keyptir væru flugmiðar fyrir fjölskylduna.

Hollendingar afnámu fyrir helgi alla flugskatta í þeirri von að lækka flugfargjöld. Þá lækkuðu Frakkar nýlega virðisaukaskatt á veitingahús annarra ferðaþjónustufyrirtækja í þeirri von að fá erlenda ferðmenn til að eyða meira í Frakklandi.