Opinberu hlutafélögin Flugstoðir ohf., sem stofnað var 1. janúar 2007 og Keflavíkurflugvöllur ohf. sem stofnað var í ágúst 2008 utan um rekstur Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, verða sameinuð í nýtt opinbert hlutafélag samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti í vikunni.

Stofnfundur nýs félags skal haldinn fyrir 31. desember 2009.

Við gildistöku samrunans skulu allar eignir og skuldir, réttindi og skuldbindingar opinberu hlutafélaganna, án sérstakra skuldaskila, renna til nýs félags sem verður að fullu í eigu íslenska ríkisins.

Friðþór Eydal, varnarmála- og upplýsingafulltrúi, vildi ekkert tjá sig um hverju þessi sameining komi til með að skila. Ljóst sé þó að rekstur flugvallarins falli undir samkeppnisreglur á evrópska efnahagssvæðinu og verði því væntanlega áfram sérstök eining.