*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 7. nóvember 2011 20:10

Flugvélar WowAir reknar af írskum flugrekanda

Fjárfestingarfélag í eigu Skúla Mogensen mun á næsta ári hefja flugrekstur. Samkeppnin mun fyrst og fremst beinast að Iceland Express.

Gísli Freyr Valdórsson
Skúli Mogensen fjárfestir virðist í skýjunum með flugfélagið Wow Air.
Haraldur Jónasson

Flugfélagið Wow Air mun leigja 737-400 Boeing-þotur frá kanadíska flugrekandanum Kelowna Aircraft Management og hefja flug til og frá Íslandi til Evrópu næsta vor.

Vélar Kelowna þykja almennt vel með farnar og með lága bilanatíðni.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að vélarnar verði leigðar til írska flugrekandans Air Contractors, sem er þekktur risi á þessum markaði og mönnum í flugheiminum vel kunnugur. Vélarnar verða færðar yfir á írskt flugrekstrarskírteini sem um leið auðveldar Wow Air allt flug innan Evrópu.

Skúli Mogensen vildi lítið tjá sig um hið nýja félag í samtali við Viðskiptablaðið. Hann sagðist þó hafa mikla trú á aukningu í íslenskri ferðaþjónustu en fyrir liggur að búist er við um 20% aukningu ferðamanna á milli ára næstu árin.

Wow Air verður lággjaldaflugfélag og ljóst er að félagið mun heyja harða samkeppni við Iceland Express.

Nánar má lesa um flugfélagið Wow Air í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: Skúli Mogensen Wow Air