Flugvellirnir í Keflavík og Reykjavík eru enn lokaðir fyrir millilandaflug vegna gosösku, en hægt verður að nota Akureyrarflugvöll til millilandaflugs að einhverju leyti í dag. Meiri óvissa er varðandi Egilsstaðaflugvöll. Samkvæmt korti Volcanic Ash Advisory Centres (VAAC) í London á skilgreindu hættusvæði eru allir flugvellir á Íslandi á hættusvæði sem stendur, en Akureyri verður á mörkum þess þegar líður á daginn. Svipaðri stöðu er spáð til miðnættis, en hugsanlegt að Egilsstaðarflugvöllur verði þá að einhverju leyti nothæfur til flugs. Sjónflugsskilyrði milli landshluta eru samt almennt talin góð í flugspá, nema sunnanlands enda skyggni takmarkað vestan Eyjafjallajökuls vegna gosösku.

Gosaska berst nú aðallega til vesturs frá Eyjafjallajökli en rigningin dregur úr öskumistri, einkum þegar fjær dregur eldstöðinni. Samkvæmt upplýsingu Veðurstofu Íslands er austanstrekkingur og dálítil rigning sunnanlands. Lítilsháttar öskumistur getur þó borist til Reykjavíkur og einnig til Norðvesturlands.

Veðurstofan gerir ráð fyrir suðaustan strekkingi og dálítilli rigningu á Suður- og Vesturlandi á morgun. Gosaska berst þá til vesturs og norðvesturs frá eldstöðinni en úrkoman dregur úr öskumistri. Á þriðjudag 27. apríl er gert ráð fyrir austlægri átt. Líklegt er að öskumistur verði þá yfir Suður- og Vesturlandi. Á miðvikudag og fimmtudag gerir Veðurstofan að vindurinn snúist í norðaustan átt og öskumistur berist þá einkum í suðvestur af eldstöðinni og því meira á haf út en nú er.

Frá og með 24. apríl 2010 hefur Flugmálastjórn Íslands veitt Flugstoðum heimild til þess að starfa skv. sambærilegum áætlunum sem eru í gildi á meginlandi Evrópu sem felast m.a. í að hægt er að gefa út blindflugsheimildir til flugrekenda með ákveðnum skilyrðum.

Ríki Evrópu byggja viðbúnað vegna gjósku á sambærilegri viðbúnaðaráætlun, EUR-DOC 019, en að auki hafa flugmálayfirvöld í Evrópu skilgreint þrenns konar svæði, byggt á magni af gjósku í hverju svæði fyrir sig. Svæði þessi eru skilgreind m.v. spár og aðrar tiltækar upplýsingar hverju sinni og eru þrenns konar:

Zone 1: Limited No-Fly Zone: Area of High Density Volcanic Ash Contamination. Hér er alþjóðaflug bannað.

Zone 2: Potential Contamination Zone: Area of Low Density Volcanic Ash Contamination. Flug á þessu svæði er háð samþykki flugmálayfirvalda og gerð er krafa um að flugrekendur framkvæmi áhættumat.

Zone 3: Non-Contaminated Airspace: Area Free of Volcanic Ash Contamination. Í þessum svæðum eru engar takmarkanir.

Þessi svæðisskipting á ekki við á Íslandi í dag sem helgast af því að Ísland tilheyrir NAT-svæði ICAO en ekki EUR svæði. Í gildi er enn sú almenna regla að flugrekendur skulu uppfylla kröfur hvers ríkis.

Að svo komnu máli hefur ekki verið skilgreint loftrými af gerð ‘Zone 2’ á Íslandi. Á meðan svo er er annaðhvort um að ræða opið loftrými eða bannsvæði sbr. útgefin NOTAM og SIGMET.

EASA gaf út tilmæli 23. apríl, m.a. til flugrekenda sem málið varða og er mikilvægt að fara eftir þeim tilmælum og á það einnig við um allt sjónflug. Sérstök athygli er vakin á fyrirmælum framleiðenda sem kunna að eiga við.

Flugmálastjórn vill beina þeim tilmælum til flugrekenda að gæta ýtrustu varúðar við undirbúning og framkvæmd flugs á þeim svæðum sem hugsanlega eru menguð ösku.