Fjármálaeftirlitið ætlar að fara yfir framkvæmd hlutafjárútboðs TM, að sögn Páls Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar. Hann fjallaði um útboðið í Kastljósinu á RÚV í kvöld. Í útboði TM vildu fjárfestar hlutabréf fyrir 357 milljarða króna. Endanlegt söluandvirði hlutarins í TM, sem var í hæsta enda útboðsgengisins, var 4,4 milljjarðar króna.

Páll sagði væntingar hafa verið um mikla eftirspurn. Það hafi líklega valdið því að margir buðu hærri fjárhæðir en þeir reiknuðu með að fá. Hugsanlega hafi einhverjir boðið hærri fjárhæðir en þeir voru borgunarmenn fyrir. Síðasttalda atriðið sagði hann mjög alvarlegt.

„Við höfum átt samtal við Fjármálaeftirlitið um þessi atriði. Fjármálaeftirlitið tekur þetta alvarlega og ætlar að fara yfir framkvæmd útboðanna og þessi mál öll. Það er samhljómur um þetta á markaði. Það er rétt að staldra við og fara yfir alla þessa framkvæmd til að fyrirbyggja slys í framtíðinni,“ sagði Páll.

Í Kastljósinu var vísað til umfjöllunar í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins um hlutabréfamarkaðinn og útboðin með hlutabréf VÍS og TM. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.