Eitt af því sem Fjármálaeftirlitið hefur haft til skoðunar eru þær miklu upphæðir sem innleystar voru úr peningamarkaðssjóði Landsbankans dagana fyrir bankahrunið.

Alls voru um 57 milljarðar innleystir úr sjóðnum frá 29. september til 3. október 2008. Fyrir var sjóðurinn 160 milljarðar en eftir var hann kominn niður í 103 milljarða.

Sjóðnum var síðar lokað og fengu þeir sjóðfélagar sem eftir voru um 68,8% af fjármunum sínum til baka.

Björn Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Landsvaka hf. hjá Landsbankanum, kveðst aðspurður ekki vita til þess að þetta mál sé til sérstakrar rannsóknar hjá FME eða sérstökum saksóknara.

„Við höfum sent allar upplýsingar [um sjóðinn] til FME og rannsóknarnefndar Alþingis og við látum þá um að meta þetta,“ svarar hann, inntur eftir því hvort umrætt mál hafi sérstaklega verið tekið til skoðunar innan bankans.