Fjármálaeftirlitið hefur birt tilkynningu á vefsíðu sinni þar sem segir að stjórnarmanni í lífeyrissjóði sem nýlega var vikið frá störfum á grundvelli ákvörðunar FME hafi ekki verið hættur sem stjórnarmaður. Hann hafi hætt sem aðalmaður í stjórn en sat áfram sem varamaður. Eftirlitið segir sömu kröfur gerðar til allra stjórnarmanna lífeyrissjóða, einnig varamanna.

Síðasta þriðjudag tilkynnti FME að ákveðið hafi verið að víkja stjórnarmanni Stapa lífeyrissjóðs frá störfum þar sem hann uppfyllti ekki hæfisskilyrði. Kröfum um að hann hætti hafði ekki verið sinnt. Samtök atvinnulífsins (SA) brugðust við í gær og sögðu FME fara með fleipur. Skýrt var frá því að Sigurður Jóhannesson hafi verið tilnefndur af SA til stjórnarsetu til tveggja ára árið 2010. Á aðalfundi í maí hafi nýr stjórnarmaður tekið sæti hans. Þá settist Sigurður í varastjórn Stapa.

„Breytingin var tilkomin að ósk Sigurðar sem féllst hins vegar á að SA tilnefndi hann sem varamann í stjórn lífeyrissjóðsins. Það er því rangt sem haldið er fram í tilkynningu FME frá 18. desember að Sigurði Jóhannessyni hafi verið vikið úr stjórn Stapa, honum var hins vegar vikið sem varamaður úr stjórninni,“ segir í tilkynningu SA frá því í gær.

FME segir hins vegar að aðrir kostir en að víkja Sigurði frá hafi ekki verið í stöðunni. „Þar sem sömu kröfur eru gerðar í lögum um hæfi allra stjórnarmanna lífeyrissjóða, einnig varamanna í stjórn, átti Fjármálaeftirlitið ekki annars úrkosti en að víkja honum, eins og reyndar kemur skýrt fram í fyrri tilkynningum um málið.“