*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 9. nóvember 2011 17:44

FME uppfylli skilyrði innan tveggja ára

Við athugun kom í ljós að nokkuð vantar upp á að Fjármálaeftirlitið uppfylli alþjóðleg skilyrði.

Ritstjórn
Gunnar Andersen, forstjóri FME.
Axel Jón Fjeldsted

Við athugun erlendra sérfræðinga á starfsemi Fjármálaeftirlitsins (FME) kom í ljós að FME uppfyllir ekki öll skilyrði alþjóðlegu bankaeftirlitsnefndarinnar um skilvirkt fjármálaeftirlit. Þetta kom fram í máli Gunnars Andersen, forstjóra FME, á aðalfundi eftirlitsins í dag.

Í yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er gert ráð fyrir að FME semji aðgerðaáætlun til tveggja ára, sem tryggi að stofnunin uppfylli skilyrðin. Meðal þess sem Gunnar nefndi er að stofnunin þarf að bæta aðferðafræði sína við mat á áhættuþáttum í rekstri fjármálafyrirtækja. Í tengslum við það hefur FME valið sér samstarfsland til að byggja upp áhættumatskerfi til frambúðar, og varð Finnland fyrir valinu.