Ármann Þorvaldsson hefur verið skipaður forstjóri Kaupthing Singer & Friedlander, en lokið var við að sameina starfsemi Kaupþings banka í London og starfsemi breska bankans Singer & Friedlander, sem íslenski bankinn keypti fyrir 547 milljónir punda í fyrra, þann 29. ágúst.

Krístín Pétursdóttir verður aðstoðarforstjóri sameinaðs banka, en hún flutti til London í fyrra til að stýra sameiningarferlinu samhliða Ármanni. Ármann stýrði fjárfestingabankastarfsemi Kaupþings banka frá London áður en hann varð forstjóri Singer & Friedlander í fyrra.

Skrifstofur Kaupthing Singer & Friedlander hafa verið fluttar til One Hanover Street í Mayfair-hverfinu í London, en skrifstofur Kaupþings banka voru við New Bond Street í sama hverfi.