Hrannar Pétursson hefur verið ráðinn forstöðumaður almannatengsla hjá Vodafone á Íslandi og hefur hann þegar tekið til starfa segir í frétt. Hrannar hefur undanfarin átta ár verið upplýsingafulltrúi Alcan í Straumsvík en áður starfaði hann sem fréttamaður á fréttastofu Ríkissjónvarpsins.

Gengið var frá ráðningunni snemma árs en samkomulag varð um að Hrannar lyki ákveðnum verkefnum hjá fyrri vinnuveitanda áður en hann kæmi til starfa hjá Vodafone. Hrannar mun m.a. annast upplýsingagjöf til fjölmiðla og samskipti við hagsmunaaðila auk þess að taka þátt í stefnumótun Vodafone segir í tilkynningu.

Vodafone á Íslandi er fjarskiptafyrirtæki í eigu Teymis hf. sem skráð er í Kauphöll Íslands. Starfsmenn Vodafone eru um 350 talsins og þjónusta viðskiptavini á heimilum og hjá fyrirtækjum um land allt með farsíma, síma, nettengingar og sjónvarp. GSM dreifikerfi Vodafone nær til 98% landsmanna og með samstarfi við Vodafone Group, eitt öflugasta fjarskiptafyrirtæki í heimi, er viðskiptavinum Vodafone tryggð örugg farsímaþjónusta um allan heim.