Klaus Kleinfeld hefur verið kjörinn aðalframkvæmdastjóri Alcoa Corp. af stjórn samstæðunnar. Kleinfeld er 49 ára gamall og var áður forstjóri Siemens AG. Hann mun bera ábyrgð á öllum almennum rekstri Alcoa. Kleinfeld hefur setið í stjórn Alcoa frá árinu 2003 og mun gera það áfram. Hann tekur við nýju starfi 1. október næstkomandi og mun starfa í New York segir í tilkynningu.

Kleinfeld er með doktorsgráðu í stjórnun frá háskólanum í Wuersburg í Þýskalandi. Hann lauk meistaranámi í viðskiptastjórnun og hagfræði við háskólann í Goettinge í Þýskalandi árið 1982.

Kleinfeld starfaði hjá Siemens í tuttugu ár. Á þeim tveimur árum sem hann stýrði samstæðunni gjörbreyttri hann rekstri hennar til hins betra. Hann lagði áherslu á þrjú vaxtarsvið og jók tekjur samstæðunnar um meira en 16 milljarða bandaríkjadala árið 2006. Undir hans stjórn náðu rekstarsvið fyrirtækisins háleitum tekjumarkmiðum og virði fyrirtækisins nær tvöfaldaðist. Kleinfeld situr í stjórn ýmissa alþjóðlegra fyrirtækja, m.a. Bayer AG og Citigroup.

Alcoa er fremsti framleiðandi heims á súráli, hrááli og unnum álvörum. Fyrirtækið framleiðir málma sem notaðir eru í margs konar iðnaði, s.s. við smíði samgöngutækja, í umbúðaverksmiðjum og byggingariðnaði. Einnig framleiðir fyrirtækið vínylveggplötur, hluti sem notaðir eru í rafkerfi bifreiða og ýmsan neytendavarning, s.s.
Reynolds Wrap® álumbúðapappír, Alcoa® hjól og Baco® álpappír. Hjá fyrirtækinu starfa 129.000 manns í 400 starfsstöðvum í 42 löndum.